FULLT HÚS MEÐ ARA MAGG
Ljósmynd: Gunnar Leifur Jónasson
Í gær, miðvikudaginn 12. nóvember hélt Ljósmyndarafélagið fyrirlestur með Ara Magg, í samstarfi við Canon á Íslandi og Ofar. Færri komust að en vildu og það var gersamlega pakkað út úr dyrum.
Ari talaði um verkefni sín sem hann hefur sinnt síðustu ár og eru hvert öðru áhugaverðari. Hann deildi með okkur mögnuðum myndum sínum og sögum og gaf okkur innsýn í skapandi ferli sitt og miðlaði þekkingu sinni og reynslu. Einnig fengum við að skyggnast bak við tjöldin með honum. Þetta var sannkölluð innblástursstund fyrir alla viðstadda, en Ari hefur á síðustu 20 árum skapað sér sterk ítök í íslenskri og alþjóðlegri ljósmyndun.
Miklar þakkir fá Canon og Ofar fyrir að hýsa viðburðinn með stuttum fyrirvara, en það varð fljótt ljóst að þetta yrði fjölmennt og að húsakynni okkar myndu ekki bera það.
Við þökkum ykkur sérstaklega öllum kærlega fyrir komuna, svo gaman að sjá ykkur svona mörg og enn og aftur sýndi það sig og sannaði hvað tengslanet ljósmyndara á Íslandi er mikilvægt og skemmtilegt. Síðast en ekki síst þökkum við Ara fyrir að koma til okkar og gera kvöldið svona eftirminnilegt.
Ljósmynd: Gunnar Leifur Jónasson
Ljósmyndir: Ofar & Gunnar Leifur Jónasson
Stjórn Ljósmyndarafélags Íslands (talið frá vinstri): Guðmundur Skúli Viðarsson formaður, Heida Björnsdóttir, Ólína Kristín Margeirsdóttir, Anna Kristín Scheving, Rán Bjargar og Gunnar Leifur Jónasson
Stjórnin vinnur hörðum höndum að því að gera samfélag ljósmyndara sterkt á Íslandi með allskyns viðburðum og samveru. Án ykkar væri það auðvitað ekki hægt og færum við ykkur góðar þakkir fyrir að standa með okkur í þessu og mæta svona vel á viðburði félagsins! Við kunnum virkilega að meta það.
Það er nóg framundan hjá okkur og ber þar helst að nefna jólahlaðborð þann 11. desember nk. á Tunglinu, Lækjargötu 2. Þá ætlar Svenni Speight að koma til okkar með fyrirlestur yfir dýrindis máltíð og svo verður glæsilegt happdrætti líkt og í fyrra.
Svo á nýju ári verður risaviðburður sem sameinar þrjú stór verkefni í einn glæsilegan ljósmyndadag: 100 ára afmælishátíð Ljósmyndarafélags Íslands, evrópsku FEP-keppnina og sjálfa heimsmeistarakeppnina í ljósmyndun (WPC – World Photographic Cup). Sá viðburður fer fram laugardaginn 25. apríl 2026. Dagsetning sem allir ljósmyndarar og áhugamenn ættu að taka frá strax! Gert er ráð fyrir 300–400 gestum hingað til lands, allstaðar að úr heiminum í tilefni dagsins og Ljósmyndarafélag Íslands vinnur nú þétt með FEP og WPC að skipulagningu þessa risaviðburðar þar sem boðið verður upp á metnaðarfulla dagskrá sem sýnir íslenskt ljósmyndasamfélag í allri sinni dýrð.
HLÖKKUM TIL AÐ SJÁ YKKUR ÖLL ÞAR!
Endilega vertu með okkur í samfélagi ljósmyndara á Íslandi og skráðu þig í Ljósmyndarafélagið