Vilt þú læra ljósmyndun?

Ef þú ert að velta fyrir þér að læra ljósmyndun en veist ekki hvar þú átt að byrja þá getum við kannski hjálpað.

Það er trú okkar í Ljósmyndarafélaginu að menntun sé máttur þegar kemur að ljósmyndun og mælum við með því að þeir sem hafa áhuga á því að leggja fyrir sig ljósmyndun sem atvinnu leiti sér menntunar í faginu. Nám er ekki einungis góður grunnur í faglegum vinnubrögðum heldur einnig mikilvægur tími til að finna sinn stað í ljósmyndun, þroska sig sem listamann og handverksmann og síðast en ekki síst til að byggja upp tengslanet í greininni. Það er ágætis byrjun að velja annað hvort iðnskólanám eða háskólanám. Með einföldun má segja að iðnskólanám sé oft tæknilegra meðan háskólanámið sé listrænna þó það sé alls ekki algilt.

En hvað er viðurkennt ljósmyndanám og hvar má sækja sér það?

 
 

Ljósmyndanám Erlendis

Hafir þú hug á að fara erlendis eru valmöguleikarnir auðvitað fjölmargir.
Iðnnám erlendis hefur verið vinsæll kostur. Til dæmis í Danmörku. Þar eru skólagjöld lág og stundum engin. Líkt og hérlendis þurfa nemendur að ljúka við samning hjá meistara til að ljúka námi. Eftir starfsnám eru nemendur oft vel undirbúnir til að hefja störf sjálfstætt. Það getur þó verið krefjandi að komast á samning hjá meistara því nemarnir eru mun fleiri en þeir samningar sem í boði eru.

Annar valkostur er háskólanám í ljósmyndun. Íslendingar hafa meðal annars sótt skóla í Bretlandi og Bandaríkjunum. Að útskrifast með BA gráðu opnar dyr að frekara háskólanámi á meistarastigi sem sveinspróf veitir ekki. Hinsvegar þarf að sækja um hjá Iðunni fræðslusetri til að fá BA nám sitt samþykkt til að öðlast starfsréttindi hér á landi. Háskólanámið er oftast mun dýrari kostur.

Nám erlendis gefur nýtt sjónarhorn á fagið og víkkar sjóndeildarhringinn auk þess sem að margt ljósmyndanám erlendis er einfaldlega mjög gott nám. 

Ljósmyndanám á Íslandi

Á Íslandi eru tvær leiðir færar þó að enn sem komið er geti einungis önnur þeirra leitt til sveinsprófs og starfsréttinda. Þegar þetta er skrifað er þó margt að gerast í þessum málum og ekki ljóst enn hvernig þau mál fara. Hér að neðan er fjallað um stöðuna eins og hún er núna.


Nám á Íslandi

Tækniskólinn

Nám í Ljósmyndun við Tækniskólann er tvær annir að undangengnu grunnnámi upplýsinga- og fjölmiðlagreina eða sambærilegu námi. Að því loknu þurfa nemendur að komast á samning í starfsnámi hjá starfandi ljósmyndara til að komast í sveinspróf í ljósmyndun og öðlast viðurkennd starfsréttindi.

 

Ljósmyndaskóli Íslands

Ljósmyndaskóli Íslands er sjálfstætt starfandi skóli í ljósmyndun. Markmið skólans er að kenna ljósmyndun, að auka veg ljósmyndunar á Íslandi og valmöguleika í menntun ljósmyndara með listsköpun að leiðarljósi.

 

 

Að komast á samning

Eins og staðan er í dag er ekki auðvelt að komast á samning. En það eru þó nokkrir ljósmyndarar og vinnustaðir sem taka reglulega nema og lista yfir þá má finna á vef Iðunnar - Fræðsluseturs.

Sveinspróf

Sveinspróf í ljósmyndun er haldið af Iðunni í samstarfi við Ljósmyndarafélag Íslands. Undanfari sveinsprófs er nám í ljósmyndun ásamt starfsnámi í ljósmyndun. Prófið er að jafnaði haldið einu sinni á ári. 


Nám erlendis

pantone5425-name-blw.jpg

Medieskolerne i viborg

Iðnnám í Medieskolerne hefur lengi verið vinsæll kostur. Sér í lagi fyrir þá sem hafa áhuga á auglýsingaljósmyndun. Skólinn leggur mikla áherslu á tæknilega kunnáttu og býr yfir frábærum tækjabúnaði fyrir nemendur. Náminu er skipt upp í nokkrar lotur þar sem nemendur skiptast á að vera í skólanum og að vinna á samning. Alls tekur námið um fjögur ár.


Finnst þér eitthvað vanta?

Ef þú ert að hugleiða nám í ljósmyndun og hefur einhverjar spurningar endilega sendu okkur línu.