Þá er Ljósmyndarafélagið komið úr sumarfríi og við höldum áfram með vinsælu fyrirlestrana okkar.
Sigurður Ólafur Sigurðsson ætlar að koma til okkar og segja okkur frá verkefnum sínum sem ljósmyndari Björgunarsveitarinnar með áherslu á verkefni sitt "Reykjanes vaknar" en síðan í janúar 2020 hefur hann fylgst með og skrásett sögu jarðhræringanna með ljósmyndum og video og áhrif þeirra á íbúa og landslag.
Efni úr þessum atburðum er nú orðið að bók, tveim ljósmyndasýningum auk þess sem efnið hefur verið notað í heimildarmyndum, kennslu, fyrirlestra, rýni og margt fleira í tengslum við úrvinnslu og eftirmála aðgerða sem enn sér ekki fyrir endann á.
Í krafti bæði starfs síns sem ljósmyndari neyðaraðila sem og bakgrunns síns og reynslu í neyðargeiranum hefur Siggi einstakt aðgengi að ýmsum atburðum, fólki og stöðum. Um leið og þetta gerði honum kleift að ljósmynda nokkuð heilstætt sögu þessarra atburða var að sama skapi oft erfitt að vera í þessari aðstöðu, sérstaklega þegar raddir um aðgangshömlur á fjölmiðla voru hvað hæstar og umræðan hvöss á köflum.
Þó að megin umfjöllunarefni þessa kvöldspjalls yfir ljósmyndum verði að segja frá og sýna myndir frá þessum atburðum þá er ljóst að það verður erfitt á vettvangi ljósmyndara að skauta framhjá þeim innri átökum sem ljósmyndarinn átti í þegar þessir atburðir stóðu sem hæst og hvernig hann tókst á við umræðuna, þær spurningar sem hún vakti og þau áhrif sem hún hafði á verkefnið.
Í tilefni þess að þetta er fyrsti viðburður nýrrar annar hjá félaginu er fyrirlesturinn ókeypis öllum.
Fyrirlesturinn fer fram í húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35 og byrjar kl 20:00
Léttar veitingar í boði
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!