KVÖLDIÐ MEÐ KOXA
Kæru ljósmyndarar, við viljum þakka ykkur kærlega fyrir frábæra mætingu og þátttöku á aðalfundi Ljósmyndarafélags Íslands sem var haldinn í gær. Það var virkilega ánægjulegt að sjá ykkur svona mörg mæta og taka virkan þátt í málefnum félagsins.
Þegar hefðnbundnum aðalfundarstörfum lauk, þar sem farið var yfir ársreikning og skýrlu stjórnar var farið yfir það sem framundan er hjá félaginu og ber þar helst að nefna risaviðburð sem sameinar þrjú stór verkefni í einn glæsilegan ljósmyndadag: 100 ára afmælishátíð Ljósmyndarafélags Íslands, evrópsku FEP-keppnina og sjálfa heimsmeistarakeppnina í ljósmyndun (WPC – World Photographic Cup).
Þessi viðburður fer fram laugardaginn 25. apríl 2026. Dagsetning sem allir ljósmyndarar og áhugamenn ættu að taka frá strax! Gert er ráð fyrir 300–400 gestum hingað til lands, allstaðar að úr heiminum í tilefni dagsins og Ljósmyndarafélag Íslands vinnur nú þétt með FEP og WPC að skipulagningu þessa risaviðburðar þar sem boðið verður upp á metnaðarfulla dagskrá sem sýnir íslenskt ljósmyndasamfélag í allri sinni dýrð.
Kvöldið endaði svo á frábærum fyrirlestri með Kormáki Mána Hafsteinssyni, eða Koxa, sem leiddi okkur inn í heim óhefðbundinna aðferða í ljósmyndun. Koxi hefur áralanga reynslu sem atvinnuljósmyndari en hefur á síðustu árum farið að feta eigin, óhefðbundnar leiðir í skapandi vinnu. Hann deildi með okkur djúpri þekkingu sinni á gömlum aðferðum þar sem hver mynd krefst nákvæmni og mikillar þolinmæði. Það var virkilega magnað að heyra hann lýsa þessu ferli í smáatriðum; hvernig hann vinnur með efniviðinn, ljós og tíma, og hvernig hann nálgast hverja mynd með hughrifum frekar en hraða. Fyrirlesturinn var bæði fræðandi og veitti mikinn innblástur. Takk fyrir okkur Koxi!
Við munum upplýsa ykkur von bráðar um næstu skref varðandi mótun liðs fyrir WPC keppnina og vera í sambandi við þá sem lýstu yfir áhuga á að vera hluti af liðinu. Við hlökkum til að vinna áfram með ykkur að því að efla íslenskt ljósmyndasamfélag og minnum á að dyr félagsins standa ykkur ætíð opnar.
Anna Kristín Scheving félags- og stjórnarmaður tók þessar flottu myndir í tilefni kvöldsins!