VERÐLAUNAAFHENDING - FEP 2025
Allir vinningshafar sem viðstaddir voru afhendinguna í Kaupmannahöfn - mynd tekin af síðu FEP
Þann 26. apríl sl. fóru fram úrslit og verðlaunaafhending í ljósmyndakeppni á vegum Federation of European Photographers sem að þessu sinni var haldin í Lab Studios í Kaupmannahöfn. Alls bárust tæplega 3200 myndir í keppnina frá 340 ljósmyndurum víðsvegar frá Evrópu. 10 ljósmyndarar komust svo áfram í úrslit í 12 flokkum og þar af þrír Íslendingar.
Keppnin var öll hin glæsilegasta og formaður FEP verðlaunanna, Johan Brouwers og teymi hans af alþjóðlegum dómurum unnu af mikilli elju við að fara yfir þetta mikla magn mynda. Framkvæmd var nákvæm skoðun á RAW-skrám í flokkum með ströngum takmörkunum á myndvinnslu eins og náttúru-, landslags-, frétta- og brúðkaupsljósmyndun. Hafna þurfti nokkrum innsendingum en eftir stóðu stórkostlegar myndir í keppninni. Enn á ný sýndi það sig að Evrópa á aragrúa af hæfileikaríkum og metnaðarfullum ljósmyndurum.
Dagurinn var allur hinn glæsilegasti og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá af fyrirlestrum, vinnustofum, kennslukúrsum, tengslamyndun og viðburðum fyrir ljósmyndara og aðra gesti. Stærstu samstarfsaðilar FEP voru á staðnum og kynntu vörur sínar og má þar helst nefna Sony, Profoto, FujiFilm, Capture One og fleiri. Frábær veitingasala var á staðnum og allir nutu sín vel í frábæru umhverfi. Að verðlaunaafhendingu lokinni, var svo boðið til kvöldverðar og gleðskaps í glæsilegum húsakynnum Lab Studios. Markmið keppninnar er skýrt: að standa vörð um gildi ljósmyndunar með því að setja sannleiksgildi og heilindi í forgrunn keppninnar.
Í keppninni hlýtur einn titilinn European Professional Photographer of the Year og að þessu sinni var það Wolfgang Gangl frá Austurríki sem hreppti titilinn með þessum glæsilegu myndum, en hann hlaut gullverðlaun í Illustration and Fine Art flokki og bronsverðlaun í Fashion and Beauty flokki.
Það voru þau Rán Bjargar, Jeroen Van Nieuwenhove og Ragnar Visage sem komust áfram í úrslitin fyrir Íslands hönd.
Rán Bjargar varð í 2. sæti og fékk Silver Camera Award fyrir ljósmyndir sínar í Nature flokknum. Hún var jafnframt eina konan sem komst í úrslit í sínum flokki en Rán hefur verið mikill talsmaður kvenna í ljósmyndun og bent á áskoranir og ójafnvægi þegar kemur að jafnrétti kynjanna í ljósmyndaheiminum.
Rán sérhæfir sig í landslags- og ferðaljósmyndun, auk ljósmyndunar baksviðs í framleiðsluverkefnum eins og kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Ástríða hennar fyrir því að fanga kjarna sögusagnar, hvort sem það er í gegnum náttúruna, fólk eða augnablik á tökustað, hefur verið grunnurinn að ferli hennar.
“Ég þrífst vel úti í náttúrunni og legg mig alla fram við að fanga stemninguna í umhverfi mínu og veita þeim smátriðum athygli sem kannski færri taka eftir, eins og áferðum og litum. Það er mikill heiður að fá þessa viðurkenningu fyrir myndirnar mínar”
Hér má sjá verðlaunamyndir Ránar í keppninni.
Jeroen Van Nieuwenhove varð í 5. sæti í flokknum Landscape. Hann var líka einn af fyrirlesurum hátíðarinnar og hélt tvo fyrirlestra. Annars vegar fyrirlesturinn „Að deila reynslu í gegnum náttúruljósmyndun“ þar sem hann ræddi meðal annars um sívaxandi nærveru gervigreindar og hvernig það hefur orðið enn mikilvægara að deila sögum og upplifunum í gegnum ljósmyndun og hins vegar “Að mynda eldfjöll” þar sem hann talaði af ástríðu um hvernig er að vera í fremstu víglínu við eldfjöllin á Reykjanesskaga.
Jeroen á velgengni að fagna í þessari keppni, en hann hlaut 2. sæti árið 2023 og 6. sætið árið 2024 í Nature flokknum.
“Það var sannur heiður að fá að tala fyrir framan svo marga kollega víðsvegar að úr Evrópu, auk þess að hljóta fimmta sætið í landslagsflokknum. Að vera valin meðal svo hæfileikaríks hóps ljósmyndara þrjú ár í röð er mikil umbun fyrir vinnu mína sem landslagsljósmyndari.”
Hér má sjá verðlaunamyndir Jeroen í keppninni:
Ragnar Visage varð í 5. sæti í flokknum Reportage/ Photojournalism. Ragnar var ekki viðstaddur að þessu sinni og Rán tók því við verðlaununum fyrir hans hönd. Síðan 2010 hefur Ragnar að mestu starfað sjálfstætt, aðallega í sjónvarps- og kvikmyndageiranum sem ljósmyndari og hönnuður. Ragnar starfar einnig sem fréttaljósmyndari hjá RÚV.
Hér má sjá verðlaunamyndir Ragnars í keppninni: