Ljósmyndarafélag Íslands 100 ÁRA
Ljósmyndarafélag Íslands fagnaði 100 ára afmæli sínu 7. janúar síðastliðinn. Af því tilefni kom stjórn félagsins saman á stjórnarfundi þar sem hafist var handa við að skipuleggja fjölbreytt og metnaðarfullt afmælisár. Við hlökkum til að deila með ykkur viðburðum og verkefnum sem heiðra sögu félagsins, ljósmyndun á Íslandi og öflugt starf félagsmanna, fyrr og nú.
Meðfylgjandi eru myndir sem Gunnar Leifur Jónasson tók af stjórn félagsins í tilefni dagsins.
Auglýsing um stofnfund félagsins
Félagið var stofnað árið 1926 af 18 frumkvöðlum í ljósmyndun sem sáu mikilvægi þess að efla fagið, standa vörð um gæði ljósmynda og skapa vettvang fyrir samstöðu og þróun ljósmyndunar í landinu.
Frá upphafi hefur Ljósmyndarafélag Íslands gegnt mótandi hlutverki með eflingu ljósmyndunar sem faggreinar. Félagið hefur verið vettvangur fagfólks í greininni, staðið fyrir sýningum, fræðslu og umræðu, og stuðlað að varðveislu ljósmynda félagsmanna. „Saga Ljósmyndarafélags Íslands er um leið saga íslenskrar ljósmyndunar,“ segir Guðmundur Viðarsson, formaður félagsins. „Í hundrað ár hefur félagið sameinað ljósmyndara, eflt fagmennsku og skapað vettvang fyrir samtal, þróun og varðveislu miðils sem hefur ómetanlegt gildi fyrir menningu og sögu landsins.“
Á þessum 100 árum hefur ljósmyndunin tekið miklum tæknilegum framförum og félagið þróast í takt við tímann án þess að glata rótum sínum. Saga félagsins er rituð í verkum þeirra fjölmörgu ljósmyndara sem hafa með myndum sínum skrásett þjóðlíf, náttúru og tíðaranda landsins.
Í tilefni af afmælinu, verður haldið uppá það síðar á árinu með veglegri afmælishátíð laugardaginn 25. apríl næstkomandi, þar sem félagsmenn og gestir koma saman til að fagna þessum merku tímamótum og horfa til framtíðar ljósmyndunar á Íslandi. Ljósmyndarafélag Íslands þakkar félagsmönnum sínum, samstarfsaðilum og öllum þeim sem hafa stutt starf félagsins í gegnum tíðina. Með virðingu fyrir fortíðinni og bjartsýni til framtíðar hlökkum við til að halda áfram að efla ljósmyndun á Íslandi næstu 100 árin.