Lög Ljósmyndarafélags Íslands

 

1. grein – Heiti og varnarþing 

Heiti félagsins er Ljósmyndarafélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. 

 

2. grein – Skilyrði til aðildar 

Félagsmenn geta þeir orðið sem lokið hafa viðurkenndu námi í ljósmyndun og/eða hafa sannanlega atvinnu af ljósmyndun.

3. grein – Tilgangur 

 • Tilgangur félagsins er að gæta faglegra og stéttarlega hagsmuna félagsmanna, og skal félagið vinna að framgangi málefna, sem það telur sig og félagsmenn sína varða, m.a. á eftirfarandi hátt:

 • Að halda fundi með upplýsandi fyrirlestrum og öðru því er að fræðslu og gagnsemi lítur.

 • Að halda sýningar á ljósmyndum og ýmsum nýjungum, sem tengjast iðngreininni.

 • Að halda sérstaka skemmtifundi og samkomur fyrir félagsmenn.

 • Að standa vörð um lögvarin atvinnuréttindi íslenskra ljósmyndara í samræmi við gildandi iðnlöggjöf.

 • Að efla samvinnu meðal ljósmyndara, en stuðla jafnframt að eðlilegri samkeppni þeirra í milli á sem heilbrigðustum grundvelli.

 • Að vinna að því að ná sem hagkvæmustum kjörum fyrir félagsmenn á efnisvöru og tækjum.

 • Að stuðla að sem farsælastri framþróun í fræðslumálum iðngreinarinnar, jafnt á bóklega sviðinu sem hinu verklega.

 

4. grein - Árgjald 

Árgjald skal vera kr. 6.000. Breytingar á árgjaldi skal ákveða á aðalfundi. Skuldi félagsmaður 2 árgjöld eða fleiri hefur stjórn félagsins heimild til að strika viðkomandi út af félagsskrá. Stjórnarmenn, heiðursfélagar og þeir sem hafa náð 67 ára aldri skulu vera gjaldfríir.  

 

5. grein – Inntaka nýrra félaga 

Inntökubeiðni skal útfylla á vef félagsins. Stjórn félagsins er heimilt að taka inn nýja félaga, uppfylli þeir sett skilyrði skv. 2. grein. Stjórn skal halda utan um félagatal. 

 

6. grein – Stjórn og nefndir 

Stjórn félagsins skulu skipa sex félagar og skulu minnst þrír vera búsettir í Reykjavík og nágrenni. Stjórn skal vera kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður er kosinn sérstaklega en stjórn skipar sjálf í hlutverk varaformanns, gjaldkera og ritara úr kosnum stjórnarmönnum. Ennfremur skal kjósa í fastanefndir félagsins, skoðunarmenn reikninga og stjórn menningarsjóðs. Stjórn skipar í uppstillinganefnd tímalega fyrir aðalfund sem skal stilla upp tillögu að nýrri stjórn, endurskoðendum og nefndarmönnum. Forðast ber að skipta út of mörgum í einu til að halda samfellu milli ára og tryggja upplýsingaflæði milli stjórna. Kosning skal vera skrifleg og óhlutbundin og fara fram á aðalfundi. Stjórn heldur fundi reglulega eftir fyrirfram ákveðinni dagskrá. Formaður eða meirihluti stjórnar getur einnig kallað til fundar ef þurfa þykir. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar er mættur. Stjórn hefur æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda og/eða félagsfunda. Meirihluta stjórnar þarf til þess að binda félagið við allar meiriháttar fjárhagslegar skuldbindingar. 

 

7. grein - Aðalfundur 

Aðalfundur skal haldinn í febrúar hvert ár. Fundarboð ásamt dagskrá skal sendast skriflega til félagsmanna minnst 2 vikum fyrir aðalfund. Rétt til fundarsetu hafa aðeins félagsmenn, enda séu þeir skuldlausir við félagið.  

Aðalfundur er löglegur sé löglega boðað til hans.  

Lögum má aðeins breyta á aðalfundi með 2/3 atkvæða meirihluta mættra félagsmanna, enda hafi tillögur um lagabreytingar verið kynntar í dagskrá, sem fylgir fundarboði. Störf aðalfundar skulu vera sem hér segir: 

 1. Skýrsla stjórnar

 2. Reikningar félagsins

 3. Lagabreytingar, ef einhverjar.

 4. Kosning stjórnarmanna og endurskoðenda skv. 6. grein

 5. Kosning í fastanefndir félagsins skv. 8. grein

 6. Kosning í menningarsjóð skv. 9. grein

 7. Önnur mál

 

8. grein - Nefndir 

Stjórn félagsins hefur heimild til að skipa sérstakar starfsnefndir til að fjalla um einstök mál. Þá skulu í félaginu starfa eftirtaldar fastanefndir: 

Skemmtinefnd, skipuð þremur félögum. Hefur umsjón með dagskrá félagsins, kynnir viðburði og fylgir þeim eftir. Nefndarmenn eru kosnir af aðalfundi og velja formann nefndarinnar úr sínum hópi. 

Laganefnd, skipuð þremur félögum. Yfirfer lög félagsins, tekur við ábendingum og tillögum um viðhald þeirra og breytingar og leggur fyrir á aðalfundi ef þurfa þykir. Nefndarmenn eru kosnir af aðalfundi og velja formann nefndarinnar úr sínum hópi. 

Skoðunarmenn reikninga. Tveir félagsmenn skulu kosnir skoðunarmenn reikninga og skulu þeir yfirfara alla reikninga félagsins fyrir aðalfund.  

 

9. grein - Menningarsjóður 

Innan félagsins skal starfræktur Menningarsjóður. Hlutverk sjóðsins skal vera að styrkja ljósmyndara innan félagsins eða nema þeirra til framhaldsnáms erlendis og stuðla að framþróun iðngreinarinnar. Stjórn sjóðsins skulu skipa þrír menn, kosnir á aðalfundi. Stjórn sjóðsins skal skipta með sér verkum. 

 

10. grein - Myndstef 

Félagsmenn í Ljósmyndarafélagi Íslands verða sjálfkrafa félagsmenn í Myndstefi, Myndhöfundasjóði Íslands, kjósi þeir það við nýskráningu í Ljósmyndarafélag Íslands. Myndstef gegnir því hlutverki að vernda höfundarrétt félagsmanna vegna birtingar á verkum þeirra til almennings og vegna annarrar hliðstæðrar notkunar. Félagsmenn öðlast öll réttindi og skuldbinda sig til þess að hlíta öllum skyldum sem fylgja aðild að Myndstefi. 

 

11. grein – Brot á lögum 

Brjóti einhver félagsmanna í bága við lög félagsins og löglegar samþykktir þess eða vinni á einhvern hátt gegn virðingu þess eða geri sig á einhvern hátt sekan, svo að ætla mætti að hann væri óverðugur í félaginu, skal siðanefnd, sem skipuð er samkvæmt heimild 8. gr. taka mál hins brotlega fyrir og skila áliti til aðalfundar eða félagsfundar. 

 

12. grein - Samvinna 

Félagsmenn skulu hafa góða samvinnu sín á milli. Þeir skulu sýna stéttarbræðrum sínum tillitssemi og leitast við að hegða sér þannig, að samrýmanlegt sé hagsmunum þeirra beggja. Stjórn félagsins ber að fylgjast með því að ákvæði laga þessara séu haldin. 

 

13. grein - Gildistaka 

Lög þessi eru gerð með hliðsjón af fyrri lögum félagsins frá stofnun þess árið 1926 og af þeim breytingum, sem síðan hafa verið á þeim gerðar, og öðlast gildi á aðalfundi 02.05.2017.